Verkefni og verkefnaval

Þó svo að trúarleg tónlist, ásamt íslenskum þjóðlögum og sönglögum, hafi einkum einkennt lagaval Vox feminae í gegnum árin, þá hefur kórinn komið víða við eins og sést á lagalista kórsins. Kórinn hefur einnig lagt áherslu á að flytja samtímatónlist eftir íslensk tónskáld og hafa nokkur tónskáld þegar skrifað verk fyrir kórinn.

Kórinn hefur komið fram við margvísleg tækifæri og unnið með mörgum listamönnum í gegnum tíðina. Kórinn heldur nokkra tónleika á hverju ári, auk þess sem hann syngur við margvísleg tækifæri. Þá hefur kórinn farið í tónleikaferðir, jafnt innanlands sem utan.

Hægt er að fá félaga úr Vox feminae til að koma fram við margvísleg tækifæri, svo sem á ráðstefnum, skemmtikvöldum, við brúðkaup eða jarðarfarir. Vinsamlegast sendið fyrirspurn á stjorn(hjá)voxfeminae.is eða hringið í síma 863 4404 til að afla upplýsinga um slíkt.

Hér að neðan má skoða helstu verkefni sem Vox feminae hefur staðið fyrir eða tekið þátt í. Listinn er þó langt frá því að vera tæmandi.

 

2011                  

 

 

13.-20. júní

Ítalíuferð
Dagana 13. - 20. júní hélt Vox feminae í tónleikaferð til ítalíu. Margrét Pálmadóttir nam söng á Ítalíu og hefur hún staðið fyrir ferðum þangað sem margir kórfélagar hafa tekið þátt í. Þetta var hins vegar fyrsta formlega söngferð Vox feminae til Ítalíu.
Á Ítalíu hélt Vox feminae tónleika í Verona, Piacenza og í Feneyjum, þar sem kórinn söng einnig við messu í Markúsarkirkjunni. Að sjálfsögðu tók kórinn lagið við ýmis fleiri tækifæri í ferðinni. Stjórnandi í ferðinni var að sjálfsögðu Margrét J. Pálmadóttir og undirleikari var Antonía Hevesi.

 

30. maí Yl og trú andar þú
Í tilefni Ítalíuferðar Vox feminae hélt kórinn kveðjutónleikar í Dómkirkjunni undir yfirskriftinni “Yl og trú andar þú” en á efnisskránni voru trúarleg verk eftir íslenska og erlenda höfunda, verk sem kórinn hafði æft fyrir Ítalíuferðina. Stjórnandi var Margrét J. Pálmadóttir og undirleikari Antonía Hevesi
11. maí

Háskólatónleikar
Vox feminae söng í Kapellu Háskóla Íslands. Tónleikarnir voru hluti af tónleikaröð, samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Listahátíðar, sem haldin var í tilefni af aldarafmæli Háskóla Íslands árið 2011. Tónleikaröðin samanstóð af hádegistónleikum sem haldnir voru í fjölmörgum byggingum Háskólans, spönnuðu allt afmælisárið og tvinnuðust inn í dagskrá Listahátíðar. Á tónleikunum flutti kórinn trúarleg verk eftir tónskáldin Þorkel Sigurbjörnsson og Báru Grímsdóttur. Einnig frumflutti kórinn verkið Angel eftir Báru Grímsdóttur og söng tvo messukafla, Kyrie og Agnus Dei, úr messu sem Bára samdi sérstaklega fyrir Margréti J. Pálmadóttur og kórinn. Stjórnandi var Margrét J. Pálmadóttir og orgelleikari Erla Rut Káradóttir.

 

29. apríl

Kóramót á Selfossi
Helgina 29. apríl til 1. maí tók Vox feminae þátt í Landsmóti íslenskra kvennakóra, en að þessu sinni var það Jórukórinn á Selfossi sem hafði veg og vanda að skipulagningu mótsins. Um 600 konur víðs vegar af landinu komu saman á Selfossi þessa helgi. Vox feminae mun tók þátt í tónleikum í Selfosskirkju þann 30. apríl ásamt hluta þeirra kóra sem mótið sótt. Einngi söng kórinn á sameiginlegum hátíðartónleikum í Iðu sunnudaginn 1. maí.

26. mars

Þar skein sól í heiði - Vortónleikar Vox feminae í Grensáskirkju
Ásamt Vox feminae komu fram Stúlknakór Reykjavíkur og fleiri góðir gestir. Efnisskráin samanstóð af þekktum trúarlegum verkum auk vel þekktra íslenskra laga. Organisti var Antonía Hevesi og stjórnandi Margrét J. Pálmadóttir.

6. mars

Bollufjör
Maraþon-tónleikadagskrá þar sem fram komu Vox feminae, Stúlknakór Reykjavíkur, Cantabile, Margrét J. Pálmadóttir og ýmsir aðrir kennarar söngskólans Domus Vox, auk óvæntra gesta sem litu inn. Bollufjörið var eitt af fjáröflunarverkefnum Vox feminae vegna fyrirhugaðrar Ítalíuferðar.

 

Verkefni Vox feminae 2006-2010

Verkefni Vox feminae 2001-2005

Verkefni Vox feminae 1993-2000